Fundur nr. 3245

miðvikudagur, 24. mars 2021 18:30-20:00, Hótel B59 Borgarbraut 59 310 Borgarnes

Rótarýfundur 24. mars 2021

Forseti, Gísli Karel Halldórsson, setti fund kl. 18:30. Þetta var fundur nr. 8 á starfsárinu, sá  frá upphafi.

Mættir voru 8 félagar, sem gerir 47% mætingu. Afsakaðir voru Ragnar Frank Kristjánsson, Magnús B. Jónsson, Inger Helgadóttir og Þorvaldur Heiðarsson
Gestir:  Ásthildur E. Bernharðsdóttir, Lilja Hjartardóttir, Gunnar Gunnarsson og Soffía, D. Þorleifsdóttir. Þeim var fagnað á venjubundin hátt. Enginn hafði átt afmæli frá síðasta fundi.

Vegna fjarveru ritara var fundargerð síðasta fundar ekki lesin.
Undir liðnum kveðjur vakti Birna G. Konráðsdóttir athygli á því að vegna breyttra aðstæðna í sóttvörnum væri nú talað um að 10 manns mættu koma saman. Á sama tíma mættu veitingahús hins vegar taka á móti 20 manneskjum ef ákveðnum reglum væri fylgt. Staðan verður tekin með rekstraraðilum B59 eftir páska.
Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi félagi í Rótarýklúbbi Akranes gerði grein fyrir sjálfum sér og lífshlaupi sínu, en hann hefur jafnvel hug á að sækja um inngöngu í Rótarýklúbb Borgarness.
Haukur Valsson, formaður aprílnefndar sagði dagskrá mánaðarins ekki alveg liggja fyrir. Greint verður frá henni eftir páska.

Matarhlé kl. 18:45

Fundi var framhaldið kl. 19:05. Fyrirlesari kvöldsins, Ásthildur E. Bernharðsdóttir, sagði frá nýrri námsleið við Háskólann á Bifröst í áfallastjórnun. Í boði verða þrjár leiðir, þ.e. diplomunám, MCM og MA. Ásthildur fór yfir uppbyggingu námslínunnar, þar sem ofið er saman bóklegu og verklegu námi, bæði nýjum og frá eldri námslínum, en nokkur námskeið hafa sérstaklega verið sett saman fyrir þessa námsleið. Félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst heldur utan um námið og þar fer bóklegi hlutinn fram en auk þess eru samstarfsaðilar í verklega hlutanum Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Rauði krossinn á Íslandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Það er afar dýrmætt fyrir skólann að geta boðið upp á þetta nám í samvinnu við helstu viðbragðsstofnanir samfélagsins. Stefnt er að því að ýta úr vör í haust. Ásthildur nefndi að þjóðfélagslega væri afar brýnt að vinna úr áföllum og læra af reynslunni og áföll gætu verið af ýmsum toga, ekki bara náttúruhamfarir. Nefndi hún bankahrunið sem dæmi og velti upp þeirri spurningu hvort landsmenn væru komnir yfir það? Hún taldi svo ekki vera, þar væri ýmislegt óuppgert en afar brýnt væri að gera áföll upp, á hvaða hátt sem það væri. Einnig væri mikilvægt að fara í endurreisn, læra af áföllunum og upplýsingagjöf væri mjög brýn ekki síst á meðan á ferlinu stæði. Með markvissari áfallastjórnun væri hægt að auka öryggi almennings og draga úr þeim skaða sem áföllum fylgja. Þetta hefði hvatt fræðimenn til að þróa þekkingu og skilning á þeim ferlum og mannlegri hegðun sem hafa áhrif þegar áföll dynja á. Líflegar umræður sköpuðust að erindi loknu og forseti þakkaði Ásthildi fyrir fróðlegan fyrirlestur.

Farið með fjórpróf og fundi slitið kl. 20:00

Fundarritari Birna G. Konráðsdóttir